Steik

Skrifað 10.6.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Já, lífið er ekki leiðinlegt í blessaðri Kóngsins þessa dagana.

Í dag var heitasti júnídagur síðustu 5 ára, maður lifandi! Sólin hefur verið fastagestur um helgina, og ég þar með fastagestur á ströndinni. Reyndar hefur græn-bláhvítt hörund mitt ekki borið þess merki, fyrr en í dag! Í dag skarta ég nefnilega hinum myndarlegasta skaðbruna á bakinu, með bikinisnúrumynstri.

Ef ég færi óvarin út núna myndi kvikna í mér. Ég er „hot stuff“.


Smá myndir frá siglingu og grilli með Diego, Anders, Helenu og Sirrý í gær. Ekki amalegt.

Guðlast

Skrifað 7.6.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í morgun skrapp ég út í göngutúr í sólinni, í 25 stiga hitanum (mont).

Það er gaman að hlusta á danskt útvarp á kraftgöngu. Ég skipti sífellt milli útvarpsstöðva, en einhverra hluta vegna staldra ég alltaf við á „ofur-kristilegu kærleiksstöðinni“.
Já, alveg rétt….það var af því hún er gríðarlega fyndin! Ég hélt ég myndi detta í tjörnina úr hlátri yfir lögunum sem þau spiluðu.
En þegar ég var í miðju flissi og nafn Jesú Kr. Jósefssonar bar á góma söngvarans, skammaðist ég mín og skipti yfir á Britney Spears og co.
Eftir nokkur ”yeah” og ”baby” skipti ég vitaskuld aftur á þessa kristilegu, þegar ég var búin að fyrirgefa sjálfri mér guðlastið, og hélt uppteknum fliss-hætti.

Hér er gott dæmi um góðan viðbjóð:
Father’s love – Bob Carlisle
(Þarf sko að smella á lagið „Father’s love“. Sama plata inniheldur einmitt stórslagarann ”Butterfly Kisses”, en yfir því lagi hef ég ítrekað misst vatnið, eins og góðkunnugir kannast máski við.)

En hér er aftur á móti alvöru tónlist. Þetta er lag sem setti tóninn fyrir daginn hjá mér:
ManaMana – The Muppet Show

 


Góðar stundir.

RobotDoll

Skrifað 2.6.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í morgun vaknaði undirrituð eiturhress kl. 6, til þess að leysa af þjón á hóteli við Rådhuspladsen.
Þar stóð ég í fimm tíma og sagði „good morning“ og „thank you, have a nice day“.

Þarna vinnur líka brjálæðislega brosandi kínversk stelpa. Hún sagði mér að ég liti út eins og dúkka…vélmennadúkka! Og svo flissaði hún.

Og ég bara eitthvað: „thank you“…

„You look like a robot-doll…hihihi“.

Sætt

Skrifað 1.6.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í dag, 1. júní á elskuleg systir mín (aka. Kaupmannahafnarmóðir mín og vinkona) Þórunn afmæli! Ferfalt hipp hipp húrra fyrir henni!

Í dag er ég líka búin í munnlega prófinu mínu. Það gekk framar vonum. Myndi monta mig af einkunninni, en finnst það óviðeigandi :)

Kl. 8 ákvað ég að dagurinn ætti að byrja. Henti mér fram úr, hoppaði í kjólinn, dró gardínurnar frá og viti menn!

Sólin skein, og glugginn minn skartaði myndarlegasta fuglaskít! Þetta var svona einn af þessum sem hefur komið „beint á ská“ að ofan, og lekið hægt og sígandi niður rúðuna.

Ég hugsaði með mér: „Æ, grey bí bí litli. Bí bí á ekkert klósett“, og brosti í kampinn.
Þegar ég svo settist með kaffibollann minn við skrifborðið mundi ég það; Það var brjálað partý á þakinu í gær. Þar var fólk að drekka áfengi.

Fuglaskítur er dúllulegri en æla.

Gulur rauður grænn og blár

Skrifað 28.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

 

Minning um „pallettur“ sem ég varð að henda sökum plássleysis.

Ég er ekki frá því að þær séu betri en grey málverkin sem urðu til með þeirra hjálp. Ég ætti kannski frekar að henda þeim og halda þessum. Mikil list, mikil list…

Lagfæring

Skrifað 27.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Mér finnst ég eiginlega verða að blogga í dag.

Ástæðan er ekki skyldurækni við lesendur eða stórfréttaskot úr stórborginni.

Ástæðan er einfaldlega sú að myndin í síðustu færslu tónar svo ansi illa við toppinn á síðunni.

Jæja, þá er það afgreitt.

Krass og texti

Skrifað 21.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég hef komist að því þessa síðustu viku, að því lengur sem maður starir á texta á tölvuskjá, því minni merkingu fær hann.

Ég skilaði í morgun ritgerð, sem ég hef ekki hugmynd um hvað fjallar.

Dropi í 13 ár!

Skrifað 20.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Elskulegur hundur okkar, Ljúflings Dropi Gorbason átti afmæli í gær, 19. maí.

Varð Dropi þar með 13 ára gamall, eða 91 árs í hundaárum talið. Mér finnst það hafa gerst í gær þegar hann hljóp úr hvolpahópnum, beint í fangið á mömmu. Þá var ekki aftur snúið.

Hann er vafalaust aldurforseti síns kyns á Íslandi. Húrra fyrir því! Mér finnst að tímaritið Sámur ætti að sækja hann heim og taka við hann viðtal. Hundar hafa nú verið frægir fyrir minna.

Megi hann lengi lifa!

Brú

Skrifað 17.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Hann var í rauðum hlýrabol og hvítum stuttbuxum. Ljóshærður. Berfættur.
Í salnum var rökkur. Hann sveigði sig til hægri og vinstri, fram og aftur, aftur og aftur. Hann stökk hátt upp í loftið, lenti mjúklega og beygði sig djúpt niður í gólfið.
Hann stóð upp, teinréttur með hendur upp í loft, fann jafnvægið og lét sig svo síga afturábak í brú. Þannig stóð hann, með magann upp í loftið drykklanga stund, þar til hann spyrnti fótunum af öllum krafti yfir höfuðið og sveiflaðist á fætur.
Hann var ánægður með sig, og hristi sig allan og hoppaði um; dansaði næstum. Hann lyfti handleggjunum á ný og leit í kringum sig. Hann kipptist við og brosið hvarf. Hann lét handleggina síga og sneri sér undan. Hann settist álútur á gólfið og þóttist laga reimarnar á hlaupaskónum sínum.

Bara að hann hefði ekki séð mig.
Maður er aldrei einn.
Sérstaklega ekki í líkamsræktarstöð niðri í bæ.

Fiskur og blogg

Skrifað 15.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Alveg er það stórmerkilegt hversu léttir dagarnir verða ef maður bara man eftir að borða fiskinn sinn, taka inn lýsið og hreinsa úr eyrunum.

Ég er nýbúin með seinna verkefni vetrarins, undir handleiðslu Sean Connery og Sean Connery. Það lukkaðist svona líka ágætlega hjá okkur, og hef ég sjaldan lært jafn mikið á jafn stuttum tíma. Silfurhærðir menn eru vitrir menn.

Dagskrá næstu tveggja vikna mun samanstanda af ritgerðarskrifum, munnlegu prófi og vonandi einhverju manneskjulegu líka. Hver veit nema maður skelli sér í sólbað, já eða hendi í pönnsur.

Lýsi eftir gestum í kaffi. (Já, gott fólk. Er að gera ALLT annað en að skrifa ritgerð).

Krass

Skrifað 13.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Krass í tilefni dagsins.

Er lúin og búin. Var í fermingarveislu í Birkerød í allan dag.

Sól, sumar og myndarlegir menn

Skrifað 1.5.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég hef látið krassið góða duga sem blogginnlegg síðustu daga. Það gengur þó klárlega ekki til lengdar. Hef bara frekar mikið að gera þessa dagana.

Við erum í mjög skemmtilegu tveggja vikna verkefni þessa dagana, sem fjallar um ímyndarhönnun, markaðssetningu o.s.frv. Við fengum tvo gestakennara í þetta sinn, sem heita Igor og Carl. Þeir gætu verið tvíburar, fyrir utan þá smávægilegu staðreynd að Carl er sænskur en Igor danskur. Þeir skarta báðir myndarlegum skalla og snjóhvítu skeggi, auk þess sem þeir eru jafningjar í glæsilegum en um leið afslöppuðum klæðaburði.
Þeir hófu kennsluna á því að kynna sig fyrir bekknum, og undirstrika um leið að þeir væru bestir í heimi. Þeir töldu upp ótal dæmi um eigin velgengni og þeir „þyrftu“ klárlega ekkert að vera að kenna. Þeir gætu hæglega setið á frönsku Rivierunni með viskíglas í annarri og vindil í hinni; svo hagsælir væru þeir.
Þetta þótti okkur bæði hrokafullt og fyndið, en þetta reyndist vera algerlega snilldarlega gert hjá þeim. Með því að byrja á því að segja frá velgengni með aðra nemendur og sýna fram á að „bransinn“ getur gefið vel af sér fyrir þá sem leggja sig fram, þá settu þeir markið mun hærra fyrir okkur. Við verðum klárlega að heilla þá félaga upp úr skónum, það er morgunljóst. Ég gæti nefnilega vel hugsað mér viskí á Rivierunni einn daginn.
Í næstu viku eigum við svo að hella okkur út í það að hanna auglýsingaherferð fyrir umdeilt samfélagslegt málefni, sem við vitum ekki enn hvað verður. Það er mikið um þann stílinn í skólanum núna; að segja okkur ekki hvað tekur við. Það eykur óneitanlega á spennuna.

Annars líður mér barasta mjög vel. Heilsan er góð. Ég hef meira en nóg að gera, bæði í skólanum og í eigin verkefnum. Ekki spillir það svo fyrir að sumarið er komið. Ég er nú þegar komin í brúnkukeppni við sjálfa mig, þar sem fótleggir keppa við handleggi. Ég er því miður enn bláleit á leggjunum, en svei mér þá orðin gulleit á höndunum. Eiga handleggir því vinninginn þessa vikuna.

Ég í góðum gír, ásamt Carl og Igori.

Krass

Skrifað 30.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Skammskamm

Skrifað 26.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í dag reyndi kennarinn minn að kaupa fyrirgefningu mína með flødebolle.

Það virkaði. Henni er fyrirgefið.

Skamm

Skrifað 23.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í dag skrópaði kennarinn minn í skólanum.

Ætli hennar helgi hafi verið eins skemmtileg og skrautleg og mín?

bíbí

Skrifað 22.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Krass

Skrifað 21.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

 

Í dag er glaða sólskin og hressandi rok. Mótvindur í allar áttir og fræ fjúka í augu og eyru.

„I’m so vain…“

Skrifað 19.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég fer stundum í klippingu. Það er ekkert merkilegt, því það gera flestir.

Það gerði ég einmitt í dag. Þetta var ókeypis klipping, og ég fékk meira að segja gjafir fyrir að leyfa hárskeranum að eiga við mig. Það þóttu mér góð viðskipti.

Skapast hefur hefð fyrir því á þessum vettvangi að birta ítarlega myndræna skýrslu þegar ég kem heim úr klippingu. Sjálfri finnst mér þetta nokkuð sjálfhverft og þykir reyndar nóg um. Í þetta skipti ætlaði ég því að láta slíkt alveg vera, en sökum mikillar eftirspurnar og hvatningar hef ég ákveðið að heiðra lesendur með enn einni blikkmynda-skýrslunni:

Hinar ofurfagmannlegu og þokkafullu „pósur“ á ég góðum genum og áralangri reynslu að þakka.

Skrifað 18.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Krass

Skrifað 17.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Það er ekki mönnum bjóðandi að blogga ekki í næstum heila viku. Þessu geri ég mér vel grein fyrir, og get varla ætlast til þess að halda mínum dygga lesendahópi með þessu áframhaldi.

Því hef ég ákveðið að þá daga sem andleysið grípur mig, mun ég heiðra lesendur með krassi einhvers konar, sem stór hluti míns dýrmæta tíma fer í hvort sem er. Þetta er mismerkilegt krass, en betra er ódýrt krass en ekki neitt.

Páskar á Íslandi

Skrifað 12.4.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Orð eru óþörf.

Takk fyrir mig, elsku mamma og pabbi.

Skrifað 28.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Páskaglugginn minn.

Skundaði yfir götuna í fyrradag, íklædd inniskóm og vopnuð skærum, og frelsaði nokkrar greinar af runna við brautarteinana.

Páskarnir geta blátt áfram ekki komið án þess að ég fái að horfa á aumingjalegar trjágreinar lifna við í vasa, sligaðar af létt-púkó skrauti.

Mér finnst annars að fagnaðarlætin yfir væntanlegri Íslandsför minni megi alveg verða örlítið meiri. Hvað ef ég segist koma með bjór og danska spægipylsu handa öllum…? Anyone??

Skrifað 26.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

heim

Alger draumur

Skrifað 24.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Mig dreymdi skrýtinn draum.
Ljóshærð, meðalhá kona kom að mér í skólanum og spurði hvort ég væri Sigríður. Ég sagði svo vera. Þá sagði hún að hún væri blaðamaður og að mér hlotnaðist sá heiður að fá að vera í greininni „15 mínútur“.
Ég varð mjög upp með mér og settist á móti spyrjanda, sem fór að spyrja mig mjög persónulegra spurninga. Ég svaraði hverri á fætur annarri með mikilli innlifun og innsæi. Mér fannst ég blátt áfram vera að sálgreina sjálfa mig í þessu viðtali; hella úr hjarta mínu á skrifblokk spyrjanda.
Svo datt mér í hug að spyrja hvar greinin myndi birtast. Þá fékk spyrjandi undarlegan glampa í augun og sagði stolt: „Andrés önd, 657. tölublað“

Fall er fararheill

Skrifað 22.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég smurði avókadóinu á rúgbrauðið, skellti sneið í stíl ofan á og pakkaði í álpappír. Það var langt síðan ég hafði smurt svona gott nesti og verið svona tímanlega.
Klukkan var tíu mínútur í.
Ég fór inn í herbergi til þess að ná í skólatöskuna mína, skellti mér í fína gömlukalla-loðjakkann minn, læsti og hentist fram í átt að stiganum.
Útgöngufas mitt felur í sér að slengjast utan í dyr, stiga og veggi, sérstaklega þegar klukkan tifar. Þennan dag var það óheppilegt, þar sem verið er að mála stigaganginn okkar skjannahvítan! Brussugangur leiddi því til skjannahvítrar vinstri jakkaermar.
Ég tók nettan pirring og hjóp aftur inn í herbergi, úr jakkanum og undir kranann. Þar skrúbbaði ég og bölvaði til klukkan fimm mínútur í, gafst þá upp og henti mér í einu úlpuna afgangs; rauðu dúnúlpuna mína.
Eftir einstaklega varkára útgöngu hljóp ég að hjólinu mínu og gerði mig líklega til þess að opna lásinn.
Splat!!
Hvað var þetta??
Neih, hafði ekki bara eini fuglinn í háloftum Kaupmannahafnar þennan daginn tekið sig til og skitið á hnakkinn minn, beint fyrir framan nefið á mér.
Splat!!
Aftur?
Í þetta sinn hafði bíbí miðað á vinstri úlpuermina…og hitt.

Ef bara annað þessarra óhappa hefði komið fyrir mig, hefði ég látið það pirra mig og verið öfugsnúin fram að hádegi. En vegna þess að bíbí var svo vinsamlegur að kúka á mig svona rétt eftir málningarklíninginn, gat ég ekki annað en skellt uppúr, svei mér þá, og varð hin hressasta fyrir vikið.
Á leiðinni í skólann, hjólandi standandi vegna fugla-ósóma á hnakki, mundi ég svo eftir því að svona óhöpp eiga það til að gerast í þrenndum.
Það var þá sem það rann uppfyrir mér að rúgbrauðið mitt með avókadóinu varð eftir heima.

gamlar gulnaðar bækur – til margs nýtar

Skrifað 16.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

 

smá föstudagsflipp

notadur sviti…

Skrifað 15.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

I gøtunni fyrir ofan skolann minn minn er nykomin heimsins fyrsta „genbrugs“bud (second hand) sem selur einungis notadan sportfatnad…ekkert annad.

Er eg ein um ad finnast thad dulitid sveitt…?

theSecret

Skrifað 12.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég verð að mæla með mynd sem ég sá í gærkveldi.  Hún er ótrúlega áhrifarík, og ég er ekki frá því að ég sé allt önnur manneskja eftir að hafa séð hana, grínlaust.

Hægt er að horfa á hana á

www.thesecret.tv

(Það kostar tæpa 5 $, en það er VEL þess virði, trúið mér).

Hún fjallar um hið eina sanna leyndarmál, um leiðina að góðu lífi. Njótið með tebolla og glósubók.

Skrifað 11.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ungdómurinn og ég

Skrifað 6.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Já, hér í útlandinu hefur aldeilis margt misjafnt gengið á síðustu daga.

Með misjöfnu á ég að sjálfsögðu við óeirðir og læti unga fólksins. Hér, er að finna ágætis greinargerð um gang þeirra mála. Sjálf legg ég ekki í að segja frá því og er satt að segja orðin frekar pirruð á þessu. Þetta er komið gott.

Hjá mér er lífið hins vegar öllu friðsamlegra, að vanda.

Á fimmtudaginn var ég Sigríður,
á föstudaginn var ég Kleópatra,
á laugardaginn skartaði ég grænu yfirvaraskeggi
og á sunnudaginn bólu og baugum.

Í dag er ég hins vegar hin hressasta og nýti tímann vel, t.d. í svona:

 

Líf og fjör

Skrifað 1.3.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Á meðan þetta gekk á, sat ég örlítið sunnar í bænum í litlu hvítu bjálkaherbergi, með klassíska gítartónlist í eyrum og hugleiddi.

Dingaling!

Skrifað 27.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Í gærkveldi, sem oftar, var farsíminn minn eitthvað ruglaður í ríminu. Hann blikkaði mig látlaust og gaf frá sér undarleg hljóð. Hann stóð líka á sér þegar ég reyndi að opna hann og slökknaði svo fyrirvaralaust. Svona maskínu treystir maður ekki til þess að hringja og vekja mann á slaginu átta á mikilvægum skóladegi.

Því brá ég á það ráð að stilla líka gömlu góðu rauðu vekjaraklukkuna mína, sem ég keypti í flugvél Iceland Express á leið í lýðháskóla haustið 2004. Hún hefur verið gróflega vanrækt upp á síðkastið, þar sem hún hefur fengið að dúsa djúpt ofan í skúffu. Í tvö ár hefur hún hvorki fengið að vekja mig né segja mér hvað tímanum líður.

Eitthvað hefur litla rauða klukkan verið bitur út í mig.

Að minnsta kosti stóð ég fullklædd inni í eldhúsi, með grautarpottinn í annarri og mjólkurfernu í hinni, þegar eldhúsklukkan sagði mér að hún væri bara kortér í fjögur.

Ég vona að vekjaraklukkudruslan atarna hafi haft gaman að þessum hrekk, því hún á sannarlega óskemmtilega tíma framundan…

…í klósettruslatunnunni.

Einhverskonarvikuannáll

Skrifað 23.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Eymingjaskapurinn atarna var tekin út á einum degi. Gvend grunar að lýsið og grauturinn góði hafi átt þarna drjúgan hlut að máli.
Margt, gott og misjafnt hefur verið afrekað síðan.

Kemur þar m.a. við sögu…

bunki af Vogue frá 1976    –    hönnun bæklings um geðsjúkdóma    –    sigur í rapp„battli“…á dönsku    –    krass og krot    –    konudagur og bolludagur á einum sunnudegi    –    fyrirlestrar og módelteikning    –    strunsugöngur og lall   –    gúmmístígvél    –    Nouvelle Vague á tónleikum    –    snjóskautun á reiðhjóli    –    Ratatat á tónleikum    –    fundur á sjálfi mínu    –    kaffidrykkja   –   …..

Og er þarna aðeins fátt upp talið. Og ekki tekur verra við.
Mun þar m.a. koma við sögu…

barnapössun    –    kampavínssamkvæmi    –    heimsókn pabba til Köben    –    kennsla í typografi-fræðum    –    atvinnuleit    –    fastelavnsfest og tour des cousines    –    fullt tungl    –    Arcade fire á tónleikum    –    krass og krot    –    Feist á tónleikum    –    Íslandsferð   –   …..

Ekki amaleg dagskrá hér á ferð og er lesendum bent á tímapantanir í síma 27389408

Skrifað 14.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég afsaka þessa einstaklega ósmekklegu og sjálfhverfu færslu með því að ég ligg heima með hita (í fyrsta sinn í ár og öld…)
Er alein inni í herbergi í eymd minni og ekki annað að gera en að tilkynna umheiminum að ég hafi verið í klippingu…
…er með óráði.

dægradvöl

Skrifað 12.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Nú er það svo, að þegar maður er „stúderende“ í skapandi námi í útlöndum, þá finnst manni að maður eigi að nýta frítíma sinn í eitthvað ógurlega innblásið og listrænt.

Stundum er höfuð og hjarta þó gersneytt frumlegheitum og framkvæmdagleði, og þá er gott að hafa eitthvað andlaust og að snúa sér að.

Hér eru skemmtilegir linkar sem bjargað hafa mörgu ófrumlegu mánudagskveldinu hér á ØsterVold:

Þættir og bíómyndir a gogo
Uppgötvaðu nýja tónlist
Hlustaðu á meiri tónlist

Njótið andleysisins og góðar stundir.

Ný kynni

Skrifað 8.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég og Nikon Coolpix L4

Bli’ ved!

Skrifað 6.2.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Undirrituð hefur jafnan lagt metnað í að forðast kyrrsetu og slen.

Partur af því prógrammi hefur stundum verið að festa kaup á líkamsræktarkorti. Ég á einmitt eitt svoleiðis núna og skakklappast niðureftir annað slagið; svona þegar illa viðrar.

Oftast böðlast ég bara í tækjum eða lyfti lóðum, en annað slagið rata ég í Bodypump- eða Pilatestíma. Aðrir hóptímar eru asnalegir. Ég forðast helst aðstæður sem fela í sér að skoppa upp og niður meðal miðaldra kvenna, í takt við stórslagara Scooter og Crazy Frog.

Um daginn tók ég þó svaka séns og skráði mig í Spinning! Þar komst ég að því, að g-strengir sem skaga upp úr hjólabuxum og svitaslettur í lítravís eru fegurri sjón en áðurnefnt kvennaskopperí.

Í dag er ég orðin drottning hinna kyrrstæðu hjóla.

Ég var þó að velta því fyrir mér hvernig ég get haldið út heilar 75 mínútur af þessarri hringavitleysu, og ég held ég viti svarið: Þegar sem mest gengur á í hjóleríinu, hrópa þjálfararnir hástöfum til þess að hvetja másandi svitasprautarana. Þeir segja „Sigríð! Sigríð! Lidt længere!“ (sem er víst á góðri dönsku stafsett: „Bliv ved! Bliv ved! Lidt længere!“.)

 

(mynd: BoBedre, oktober 1969)

blogg

Skrifað 31.1.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Síðustu vikuna hefur mig dreymt frábærlega viðburðaríka og skemmtilega drauma á næturnar (ég ætla þó að hlífa lesendum við smáatriðum).

Þeir eru margir svo stórkostlegir að mitt eigið líf bliknar í samanburði við þá.

Því hef ég undandfarið afskrifað allar bloggfærslur í fæðingu, þar sem vökulíf mitt virðist ekki nærri nógu spennandi til að færa í bók…nei, blogg. Ha, nei, festa á blað….nei..skjá….

Hvað er svona blogg annars? Hvílík endemis vitleysa!!

Skrifað 25.1.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Skrifað 22.1.2007 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns