Archive for the ‘Allskyns’ category

Kallinn

9.5.2010

Búið

21.10.2009

Mér finnst gífurlega lítið freistandi að blogga þessa dagana. Ég mæli frekar með spjalli á skype eða yfir kaffibolla.

Sjáumst.

?

9.10.2009

Gáta dagsins:

Hvaða fólk er að koma til Íslands yfir jólin (20. des-3. jan) til að hitta allt góða fólkið, bæði gamalt og nýtt?

Svar verður birt á morgun.

Undir putta

7.10.2009

danmorkIsland

Fyrir einu og hálfu ári síðan flutti ég frá Danmörku til Íslands. Það þótti mér merkilegt mjög. Svo merkilegt raunar, að mér fannst ég verða að illústrera það með því að ljósmynda vísifingur minn pota í gamalt hnattlíkan; á Danmörku annars vegar og Ísland hins vegar.

Ekki grunaði mig þá að áður en langt um liði myndi ég flytja til Hollands. Barasta beint UNDIR puttann! Sei sei nei…

En undir þessum putta er æði gott að vera. Mér líður eitthvað svo agalega vel hér og lífið er ljúft. Skólinn er skemmtilegur og krefjandi, Andri er góður og rigningin er góð. Undarlegt samt að rigni svona mikið hérna… ekki er þetta sérlega vatnsheldur putti.

Ný færsla!

27.9.2009

Ég vil byrja þessa færslu á því að biðja aðdáendur mína innilega afsökunar á gisnum skrifum. En nú er það bara svo að ég hef æði upptekin verið. Hef verið í afar vandasömu verkefni í skólanum. Við í bekknum mínum vissum sumsé að við yrðum í hópvinnu alla vikuna sem svo átti að enda á sýningu á laugardegi (í gær). Okkur var tjáð að hver og einn hópur myndi vinna með 3 leynigestum. Gefið var í skyn að þessir gestir væru mjög sérstakir og byggju yfir undraverðum hæfileikum. Þar sem þema verkefnisins var „framtíðin“ þá héldu flestir að um væri að ræða hámenntað fólk af einhverri sort. En viti menn, á mánudaginn mættu á svæðið 10 ára krakkar úr breska barnaskólanum sem er við hliðina á skólanum. Fagurlega búin skólabúningum og til í allt. Þau áttu að hjálpa okkur að útbúa sýningu útfrá hinum ýmsu framtíðar-spekúlasjónum. Minn hópur hreppti þrjár geysi vel gefnar ungar stúlkur og varð þetta hið skemmtilegasta verkefni. Sýningin í gær heppnaðist einnig gríðarvel. Sýni myndir af henni von bráðar. Hér er hins vegar mynd sem gefur góða mynd af stemningunni á svæðinu:

DSCN7107

Annars reið ég á vaðið (þar sem ég bý nú í íbúð frábærleikans) og hélt fyrsta bekkjarpartýið í gær! Kellan bara framtakssöm. Bauð ég fólki að mæta kl. 19, og allir komu með kræsingar og góða skapið. Snemma var eigi farið að sofa. Mögulega vöknuðum við talsvert eftir hádegi og snæddum morgunverð með síðustu gestunum.

partyAnnars er héðan allt gott að frétta. Skólinn er að komast á fullt skrið og við unum vel okkar hag, við hjónakornin. Við búum hér reyndar þrjú þessa dagana. Bekkjarfélagi minn er í miklum húsnæðisvandræðum, og sá ég aumur á honum síðasta fimmtudag. Hann hefur verið hér síðan og verður líklega 4-5 nætur í viðbót. Það er bara huggulegt, því hann er vænsta skinn. En greyið þarf reyndar að gista í gluggalausa vinnuherberginu okkar og fara gegnum svefnherbergið okkar til að komast á klósettið. Heimilislegt í meira lagi.

Svipmyndir af erlendum vettvangi

19.9.2009

Litríka Lekstraat

17.9.2009

Hér á Lekstraat 138, 1079Ex Amsterdam er gott að búa.

Hér höfum við ókeypis líkamsrækt (hringstiginn upp á 5. hæð) og gríðargóða nágranna. Mest og best höfum við að segja af hipp og kúl unga fólkinu á 3. hæð, en þau eru einmitt mjög hipp og já, mjög kúl. Svo er indælis argentínsk kona á 4. hæð, sem hefur boðið mér í te og spænskukennslu.

Óumdeilanlega litríkustu nágrannarnir, sem ég hef orðið vör við hingað til, er þó kústaklippta-gengið á jarðhæð í næsta stigagangi. Mér sýnast þarna tvær konur deila húsnæði með fíngerðum manni. Þau sitja saman við dyrnar löngum stundum og sötra á bleikum drykkjum.Kvensurnar hygg ég næstum óumdeilanlega hneigjast aðallega til kvenna og níunda áratugarins. Maðurinn er í svipuðum pakka, nema hneigist ólíklega til kvenna. Sönnun: Hann hefur sést á vappi kringum ruslatunnurnar í silkislopp.

Ég hef ekki kunnað við að smella myndavélinni framan í þau, svo ég vil hér gefa hugmynd um hvað ræðir:

nagrannar

Amsterdam

16.9.2009

Gott fólk til sjávar og sveita!

Nú þykir mér tími til kominn að skrifa eitthvað á þessa ágætu síðu.

Ég fékk innblásturinn áðan, þegar læddist að mér gamalkunnug tilfinning. Tilfinning sem ég fékk ósjaldan þegar ég bjó í Kaupmannahöfn í gamla daga. Þegar eitthvað sérstakt gerist og maður bara verður að deila því með einhverjum, svo maður gleymi því ekki líka sjálfur að slíkir hlutir geti gerst. Þetta þarf ekki að vera merkilegt, eins og dæmi dagsins sýnir:

Mig er lengi búið að langa í ákveðna dagbók, en allar bókabúðir eru búnar með birgðarnar sínar og fá hana ekki aftur  (hún er svona til 18 mánaða… júlí 2009-des 2010). Í dag var/er ég haldin svoddan verkstoli og ákvað að fara í hjólatúr og freista þess að finna bókina í næstu bókabúð hér í hverfinu. Og viti menn! Þarna var hún. Alein, einmana… og grátbað mig um að fara með sig heim. Umbúðirnar á þessu einstaka síðasta eintaki voru meira að segja allar límdar saman, því henni hafði verið skilað fyrr í dag.

Nú þegar leiðir okkar hafa legið saman, er ég ekki frá því að ég barasta hendi mér í verkefni dagsins.

…Eftir kannski einn kaffibolla

bókin góða

20.5.2008

Þetta, og þetta þykir mér eigi ófyndið.

En fátt er það þó í heimi hér sem slær þetta út.

 

Kom að því

18.5.2008

Þetta gerði útslagið. 

Síðasta mánuðinn hefur farið fram óopinber keppni um það hverjum tækist að höfða svo sterklega til samvisku minnar, að ég fyndi hjá mér löngun til að blogga aftur. 

Og verðlaunin hlýtur…. Inga! (sjá athugasemd við færsluna hér að neðan).

Og hvað höfum við lært að þessu, börnin góð? Jú, að jákvæð hvatning, með fögrum fyrirheitum en þó „dassi af dissi“, virkar best á undirritaða. Þetta geta þeir sem gjarnan vilja hafa sínu fram við mig tekið sér til fyrirmyndar. 

Dæmi: Ef einhver þráir heitast af öllu að fá mig með sér út að gefa öndunum brauð (sem mér finnst eilítið kjánaleg iðja) og segði: „Æ, þú ert svo agalega góður andabrauðgjafarfélagi, og mig dauðlangar að biðja þig að koma með. En ég veit ekki hvort ég get boðið þér með því þú kastar brauðinu alltaf svo skakkt.“ Þetta myndi afar líklega fá mig með. (Bryndís, ekki taka þetta til þín). 

Annars hafa dagarnir verið ögn stressandi upp á síðkastið og blogg þetta því verið neyðarlega neðarlega á verkefnalistanum mínum. 

Ég er að reyna að vinna sómasamlegt 6. semesters verkefni, sem ég þarf að vera búin með eftir um 3 vikur. Frítíma mínum hef ég svo eytt í að hlakka til að hitta Andra , gefa öndunum brauð og lesa Séð og heyrt á netinu, *hóst*. 

Sjáum hvernig fer.

 

Da ‘fro!

15.4.2008

Já, já nei það má vel vera að ég sé latur kjáni, retarður og óhæf til bloggskrifa. En eitt get ég þó gert og það er að segja ykkur frá þessu:

Þetta verður villt og tryllt stuð! Andri og félagar í góðri sveiflu!

Ekki er tryllingurinn síðri í ljósi þess að ákveðin Sigríður, sem ég kannast við (þessi sem nennir ekki að blogga) verður shakin’ it uppi við sviðið, í eigin persónu!

Ísland!

20.3.2008

Ég er á Íslandi til 30. mars!!!Langar að hitta ALLA og gera ALLT! Vona að ég nái sem flestu af því, já.    

16.3.2008

Í dag er sunnudagur og sólin skín.

Í tilefni þessa langar mig að kynna ykkur fyrir vini mínum, Llamakjúklingnum.

Góðar stundir.

Vatn í kaffið

14.3.2008

Í dag er rigning.

Svo mikil rigning að kaffibollinn minn þynntist umtalsvert á göngunni milli skólabyggingar A og byggingar D. 

Portrett dauðans

12.3.2008

Kannast einhver við ”raunveruleg/náttúruleg” málverk sem „eiga að líkjast“ einhverjum nákvæmlega, en gera það bara engan veginn?

Ég gleymi aldrei málverki af frú Vigdísi Finnbogadóttur, sem ég leit augum í Eden einn sumardag í gamla daga. Fátt hef ég séð óhuggulegra en þetta málverk! Þetta var svo sem ósköp venjulegt olíuportrett af frúnni í fullum skrúða, í fullri stærð og miklum smáatriðum. Það sem var svo gasalegt var að þrátt fyrir að þetta átti augljóslega að vera hún var eitthvað við augun, og bara andlitið allt, sem var svo ótrúlega ólíkt henni; vélrænt og tómt. Auk þess hafði listamaðurinn ekki haft fyrir því að ná hlutföllum andlitsins réttum áður en hann tók til við að vekja myndina til lífs með ljósi og skugga. Þessi non-Vigdís hefur ásótt mig æ síðan!

Í stofunni minni uppi í skóla er einmitt plakat af einu svona skemmtilegu málverki, þar sem gefur að líta Harry nokkurn Potter einnig í fullum skrúða. Þetta plakat vekur létta velgju í hvert sinn sem ég sé það. Þetta hefur hangið sem fastast á veggnum í allan vetur. Um daginn sat ég í mesta sakleysi alein uppi í stofu að kvöldlagi, þegar ég heyri eitthvað undarlegt hljóð. Ég leit á Harry og haldiði að hann hafi ekki verið löturhægt að losna frá veggnum. Límið gaf sig smátt og smátt, losnaði að lokum alveg og sendi Harry beint niður á gólf. Þetta fannst mér magnað að fá að vera vitni að; falli portretts dauðans. Niður með asnaleg málverk!

9.3.2008

Hljómsveitin Piss kynnir breiðskífuna Þvagleka

Krass dagsins

7.3.2008

Hvizz

7.3.2008

Já, það voru stór orð sem féllu í færslunni hér á undan. Þau voru heldur ekkert grín, enda er ég mætt til leiks í dag.

Vandamálið er bara að hleðslutækið að tölvunni minni brann yfir um daginn. Ég sat í mesta sakleysi við skjáinn þegar það örlítill sætur blossi birtist og svo stæk fýla. Svo heyrðist „hvizzzz“. Og dagar hleðslutækisins voru taldir. Blessuð sé minning þess.

Ég bara fussaði, sló mér á lær og hugsaði „Jæja, best að fara í hleðslutækjabúðina á morgun og kaupa nýtt“. Það hefur hinst vegar reynst þrautinni þyngra. Þar sem ég er með Powerbook G4, sem er eldri týpa en sú sem seld er í dag, þá fæst hið ágæta hleðslutæki sko ekki allstaðar. Í ofanálag komst ég að því að það kostar u.þ.b. 1/10 af nýrri tölvu.

Því auglýsi ég hér með, er einhver sem safnar hleðslutækjum sem kúrir á einu svona litlu sætu hvítu? Jaaa?

5.3.2008

Ljósmynd: Þórhallur Helgason

!

31.1.2008

Í gærkveldi ofhitnadi kertastjakinn minn og sprakk.

Sigurdór Ása

30.1.2008

Það er ekki tekið út með sældinni að heita Sigríður Ása Júlíusdóttir. Sérstaklega ekki þegar maður þarf á degi hverjum að hafa samskipti við fólk sem er algerlega óhæft til að bera nafnið fram. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta fólk þjáist af einhverskonar háls- nef- og eyrnavanþroska. Á degi hverjum verður aumingja nafnið mitt fyrir hinum grimmilegustu skrumskælingum sunnan Færeyja.

Í Danmörku heiti ég nefnilega ekki Sigríður, nei ó nei. Hér heiti ég nefnilega ,,Síggúrdúúúarrrgh“. Er að hugsa um að breyta nafninu mínu í Sigurdór. Það myndi einfalda líf mitt umtalsvert.

Ég er í ansi skemmtilegri hópvinnu þessa dagana, í hópnum ,,Team Smiley“ (löng saga). Þar ákvað kennarinn einmitt að nafn mitt væri Sigurdór, og er það vel:

 

 

Annars hafa málin þróast í veggjarviðgerðum hér á ÖsterVold. Ég ætla þó að láta nægja að sinni að sýna 2. stig þróunarinnar, svona til að viðhalda hinni óbærilega geysimiklu spennu sem þessum veggframkvæmdum fylgir fyrir lesendur mína:

 

 

Veggskella

23.1.2008

Ég er nú föst heima og kemst ekki í skólann. Það er vegna þess að ég er að bíða eftir því að Luigi (Super Marió bróðir) komi og lagi þetta:

 

Þetta ku vera rakaskemmd í veggnum mínum, sem á upptök sín á 4. hæð. Svona hefur útsýnið sumsé verið úr kojunni frá því fyrir jól. Sjarmerandi, ekki satt? Í dag verður sparslað. Luigi kallinn kemur svo víst aftur á morgun, með Luigi 2, og veggfóðrar almennilega. Það verður nú aldeilis mööönur, ha.

Geisp!

20.1.2008

Skólanum mínum er illa við okkur nemendur. Því eyddi ég stórum hluta jólafrísins í verkefnavinnu og ritgerðarskrif.  (1 stk verkefni og 2 stk 10 bls ritgerðir). Ég hafði ákveðið að vera örlítið lengur heima þar sem ég gat skrifað á Íslandi í staðinn fyrir í Danmörku. En Ísland var of frábært  til að eyða tímanum þar í lærdóm, og því var meirihluti herlegheitanna skrifaður daginn sem ég kom til Danmerkur og alla þá nóttina.
Síðan mætti ég í skólann á mánudagsmorgni, eftir u.þ.b. 34 tíma vöku, til þess að skila bæði annarmöppunni, með öllum verkefnunum mínum og annarri ritgerðinni, og svo teoriritgerðinni. Og já, heilsa upp á skólafélaga mína upp á mitt allra besta: í sérdeilis ósamstæðum og sveittum fötum, með stjörf augu, titrandi útlimi og kaffimettaðan maga. Svo fór ég heim að sofa. Ég svaf og svaf og svaf.
Síðan er liðin tæp vika og ég er ennþá hálfsofandi.
Ég hef verið í fríi og það er sko eitthvað sem ég kann bara alls ekki. Venjulega þegar ég er í fríi hef ég fundið upp á þúsundmilljóngrilljón verkefnum og hef haldið mér upptekinni. Núna ákvað ég að vera í „almennilegu“ fríi sem snerist um að slaka á, þar sem ég gerði minna af því um jólin en ég hefði viljað. Það hefur nú í nokkra daga gengið þannig fyrir sig að ég hef vaknað allseint, klætt mig og borðað, sest niður við eitthvað huggulegt, ss. bóklestur og hlustað á tónlist, og svo bara hreinlega sofnað aftur. Þegar ég svo hef rankað við mér hefur myrkrið verið skollið á og ég fengið ægilegt samviskubit yfir því að hafa ekki gert neitt af viti allan daginn.
Mér hentar klárlega ekki að vera í fríi. Held ég geri það bara aldrei aftur.

Halló aftur!

16.1.2008
 

Já, nú geta flestir verið sammála um að vefsíða þessi hefur ekki verið upp á sitt allra besta undanfarið. Einungis örsjaldan hefur tíst í henni, og þá ekki sérlega hátt eða merkilega.Þar sem þessi síða er mér nánast nauðsynlegur hlekkur við umheiminn, vona ég þó að einhvern langi til þess að líta hingað inn annað slagið. Í dag tilkynni ég nefnilega um upprisu síðunnar, sem verður trylltari en nokkru sinni fyrr.Ég kom til Danmerkur sl. sunnudag og er nú í óða önn við að ná mér eftir langbestu jól þessa áratugar. Maður á nefnilega svo góða að, þannig er nú það.Gleðilegt nýtt ár!

3.12.2007

Plabbs!

28.11.2007

Það var orðið kalt og ég lagði seint af stað. Ég hafði haldið möguleikanum um að hjóla alla leið opnum, var að vonast til að ná því. Ég hafði ekki haft meiri trú á stundvísi minni en svo að ég var búin að hrista sparigrísinn og finna til 40 kroner fyrir metróinn, allnokkru áður en ég í raun og veru varð sein. Með gullpeningana góðu í brjóstvasanum á loðfóðruðu bóndaúlpunni hlýju hjólaði ég galvösk í átt að metró, sem átti að flytja mig í fisk og tebolla til Þórunnar á Amager. Meðferðis var líka koddinn sem Þórun lánaði mér, í plastpoka.

Á leiðinni eru tvö stór gatnamót með umferðarljósum. Á þesslags gatnamótum er óþarfi að stoppa alveg á rauðu ljósi, heldur hægir maður meira og meira á sér þar til hjólið er næstum stopp. Þá er sniðugt að taka stórar beygjur til beggja hliða, til að halda jafnvæginu. Þetta gerði ég. Ekki hafði ég reiknað með blessuðu slabbinu á götunni þetta kvöldið. Í einni glæstri risa-hægribeygjunni rann ég því til og féll löturhægt til jarðar. Plabbs! Ofan í myndarlegan drullupoll. Bóndaúlpan rennblaut húfan af hausnum, sokkabuxurnar gegnblautar og gegnsæjar. Koddinn drullupolls-marineraður. Ég spratt upp undir eins af ólýsanlegri yfirvegun, setti á mig hettuna og brunaði stax af stað beint af augum. Húfan varð eftir. Ég mun aldrei komast að því hvor einhver hafi orðið vitni að aðförum þessum.

Boðskapurinn er því sá að það borgar sig að stoppa bara á rauðu ljósi. Lof sé guði fyrir gerðarlegar bóndaúlpur með góðri hettu.

22.11.2007

blogg

22.11.2007

Síðan mín góða. Já, megi hún lengi lifa.

Vettvangur þar sem ég skrifa um og sýni hluti sem mér finnst skipta máli, og það sem mér finnst skemmtilegt og áhugavert hverju sinni. Bloggsíðan gefur þannig innsýn í það sem ég er að hugsa og gera.
Tíðni bloggskrifa endurspeglar á ákveðin hátt líka hversu mikið ég hef að gera. Því færri færslur, því minni tíma hef ég getað séð af til skrifa.
Bloggleysi er því einnig vitnisburður um líf mitt, og vona ég að háæruverðugir lesendur mínir fyrirgefi mér þögn annað slagið.
Þaðheldégnú!
En jæja, eru ekki allir hressir???

Góðan daginn

2.11.2007

Mig dreymdi fílapensil á enni, svo stóran að þegar búið var að kreista hann varð eftir slíkt og þvílíkt ginnungagap að sást gegnum höfuð.

Ég er persónulega voða lítið fyrir draumráðningar.

Perlukafari

28.10.2007

Föstudagskrass

26.10.2007

Miðnes

21.10.2007

Einn örlagaríkan sumardag er ég var lítil stúlka, breyttist líf mitt á einu andartaki.
Ég lék mér löngum á þverslánni á skólaleikvellinum og þótti leikin við snúningana. Þennan sumardag hafði ég safnað kringum mig allstórum aðdáendahópi. Ég var full eldmóðs og alls óhrædd, þó ég snerist um slána í umtalsverðri hæð frá jörðu.
Þá gerðist það. Skyndilega missti ég takið á slánni og féll með nefið beint á mölina.
Þegar ég stóð upp fann ég að eitthvað hafði breyst. Nefið á mér var eitthvað svo undarlegt. Svo skakkt, en þó ekki. Miðnesið (brjóskið milli nasanna) hafði beyglast allgasalega til vinstri.
Uppfrá þessum sumardegi var vinstri nösin umtalsvert minni en sú hægri. Ég fann það í hvert sinn sem ég dró andann. Það sást kannski ekki á mér, en innst inni vissi ég að ég var öðruvísi en aðrir. Ég var með skakkt nef.

Í kvöld rak ég nefið harkalega í klósetthurðarkarminn. Augun fylltust sársaukaglitrum, ég reisti mig við og fann undir eins að eitthvað var breytt. Miðnesið var orðið beint.
Loksins getur líf mitt orðið eðlilegt.

Bloggísbrjótur

20.10.2007

Margt hefur á daga mína drifið síðustu daga, vikur og mánuði.

Ekki verður frá því öllu greint hér, a.m.k. ekki í dag.

Ég get þó deilt því með lesendum að ég er glöð og ánægð og við góða heilsu. Lífið er fallegt og skemmtilegt.

Framhald innan tíðar…

 

Uppskriftabók Hamrahlíðarkórsins!

10.9.2007

Já, hér gefur að líta hina einu sönnu, nýútkomnu, auðlesnu, skemmtilegu, vel hönnuðu, fjölbreyttu og frábæru uppskriftabók Hamrahlíðarkórsins!

Eins og kunnugir vita er ég á leið til Kína, ásamt kórnum góða, í rúmlega tveggja vikna tónleikaferð. Slík ferð er víst ekki gefins og vinnur kórinn nú hörðum höndum að fjáröflun. Þar sem ég þurfti að flýja land til þess að mæta í skólann, hafði ég ekki mikinn tíma til þess að selja bókina góðu til velviljandi vina og vandamanna.

Því vil ég hér vekja athygli þína, lesandi góður, á þessum gæðagrip.

Bókin, sem inniheldur 54 uppskriftir ásamt ýmsum fróðleik og skemmtiefni, kostar litlar 2000 kr. Að sjálfsögðu mun gripurinn verða afhentur kaupanda með einkar lipurri heimsendingarþjónustu.

Ef áhugi er fyrir því að styrkja gott málefni, þá endilega skiljið eftir athugasemd hér að neðan eða sendið mér póst á sigridasa@gmail.com

Með Kínakveðju,

Sigríður Ása

 

Bangsi flýgur

8.8.2007

28.7.2007

Sælt veri fólkið

Er ennþá með málverkasýningu í þessu ágæta húsi,

Gallerí Gel Hverfisgötu 37, 101 Rvk. (Þar sem Klapparstígur og Hverfisgata mætast)

Sýningin mun vara til 11. ágúst.

Annars hef ég það mjög gott hér heima í heiðardalnum. Það er ekki amalegt að koma heim í íslenska sumarið, nei o nei. Ísland er best í heimi!

 

AUGLÝSING!

12.7.2007

 

GALLERÍ GEL

(Hverfisgötu 37, á horni Klapparstígs og Hverfisgötu)

 

Já, það er staðurinn!

Sérstaklega föstudaginn 13. júlí, kl. 20:00.

Um er að ræða opnun málverkasýningar minnar, og væri ótrúlega gaman að sjá sem flesta. Léttar veigar og huggulegheit.

     Sjáumst,

Kv. Sigríður

28. júní

26.6.2007

Þann 28. júní nk. mun eilítið skrýtið og skemmtilegt eiga sér stað.
Þetta gefur ykkur fyrstu vísbendingu, lesendur góðir.
Og svoooo……giska!

18.6.2007

13.6.2007

Já, það má vel vera að ég hafi bætt örlítið á mig í vetur.

En við hjónin erum við hestaheilsu, enda hefur verið gott í ári.

Blessað lánið.