Kallinn

Skrifað 9.5.2010 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Auglýsingar

Búið

Skrifað 21.10.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Mér finnst gífurlega lítið freistandi að blogga þessa dagana. Ég mæli frekar með spjalli á skype eða yfir kaffibolla.

Sjáumst.

?

Skrifað 9.10.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Gáta dagsins:

Hvaða fólk er að koma til Íslands yfir jólin (20. des-3. jan) til að hitta allt góða fólkið, bæði gamalt og nýtt?

Svar verður birt á morgun.

Undir putta

Skrifað 7.10.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

danmorkIsland

Fyrir einu og hálfu ári síðan flutti ég frá Danmörku til Íslands. Það þótti mér merkilegt mjög. Svo merkilegt raunar, að mér fannst ég verða að illústrera það með því að ljósmynda vísifingur minn pota í gamalt hnattlíkan; á Danmörku annars vegar og Ísland hins vegar.

Ekki grunaði mig þá að áður en langt um liði myndi ég flytja til Hollands. Barasta beint UNDIR puttann! Sei sei nei…

En undir þessum putta er æði gott að vera. Mér líður eitthvað svo agalega vel hér og lífið er ljúft. Skólinn er skemmtilegur og krefjandi, Andri er góður og rigningin er góð. Undarlegt samt að rigni svona mikið hérna… ekki er þetta sérlega vatnsheldur putti.

Ný færsla!

Skrifað 27.9.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Ég vil byrja þessa færslu á því að biðja aðdáendur mína innilega afsökunar á gisnum skrifum. En nú er það bara svo að ég hef æði upptekin verið. Hef verið í afar vandasömu verkefni í skólanum. Við í bekknum mínum vissum sumsé að við yrðum í hópvinnu alla vikuna sem svo átti að enda á sýningu á laugardegi (í gær). Okkur var tjáð að hver og einn hópur myndi vinna með 3 leynigestum. Gefið var í skyn að þessir gestir væru mjög sérstakir og byggju yfir undraverðum hæfileikum. Þar sem þema verkefnisins var „framtíðin“ þá héldu flestir að um væri að ræða hámenntað fólk af einhverri sort. En viti menn, á mánudaginn mættu á svæðið 10 ára krakkar úr breska barnaskólanum sem er við hliðina á skólanum. Fagurlega búin skólabúningum og til í allt. Þau áttu að hjálpa okkur að útbúa sýningu útfrá hinum ýmsu framtíðar-spekúlasjónum. Minn hópur hreppti þrjár geysi vel gefnar ungar stúlkur og varð þetta hið skemmtilegasta verkefni. Sýningin í gær heppnaðist einnig gríðarvel. Sýni myndir af henni von bráðar. Hér er hins vegar mynd sem gefur góða mynd af stemningunni á svæðinu:

DSCN7107

Annars reið ég á vaðið (þar sem ég bý nú í íbúð frábærleikans) og hélt fyrsta bekkjarpartýið í gær! Kellan bara framtakssöm. Bauð ég fólki að mæta kl. 19, og allir komu með kræsingar og góða skapið. Snemma var eigi farið að sofa. Mögulega vöknuðum við talsvert eftir hádegi og snæddum morgunverð með síðustu gestunum.

partyAnnars er héðan allt gott að frétta. Skólinn er að komast á fullt skrið og við unum vel okkar hag, við hjónakornin. Við búum hér reyndar þrjú þessa dagana. Bekkjarfélagi minn er í miklum húsnæðisvandræðum, og sá ég aumur á honum síðasta fimmtudag. Hann hefur verið hér síðan og verður líklega 4-5 nætur í viðbót. Það er bara huggulegt, því hann er vænsta skinn. En greyið þarf reyndar að gista í gluggalausa vinnuherberginu okkar og fara gegnum svefnherbergið okkar til að komast á klósettið. Heimilislegt í meira lagi.

Svipmyndir af erlendum vettvangi

Skrifað 19.9.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Litríka Lekstraat

Skrifað 17.9.2009 af sigridurasa
Efnisflokkar: Allskyns

Hér á Lekstraat 138, 1079Ex Amsterdam er gott að búa.

Hér höfum við ókeypis líkamsrækt (hringstiginn upp á 5. hæð) og gríðargóða nágranna. Mest og best höfum við að segja af hipp og kúl unga fólkinu á 3. hæð, en þau eru einmitt mjög hipp og já, mjög kúl. Svo er indælis argentínsk kona á 4. hæð, sem hefur boðið mér í te og spænskukennslu.

Óumdeilanlega litríkustu nágrannarnir, sem ég hef orðið vör við hingað til, er þó kústaklippta-gengið á jarðhæð í næsta stigagangi. Mér sýnast þarna tvær konur deila húsnæði með fíngerðum manni. Þau sitja saman við dyrnar löngum stundum og sötra á bleikum drykkjum.Kvensurnar hygg ég næstum óumdeilanlega hneigjast aðallega til kvenna og níunda áratugarins. Maðurinn er í svipuðum pakka, nema hneigist ólíklega til kvenna. Sönnun: Hann hefur sést á vappi kringum ruslatunnurnar í silkislopp.

Ég hef ekki kunnað við að smella myndavélinni framan í þau, svo ég vil hér gefa hugmynd um hvað ræðir:

nagrannar